Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Dublin og Guinness

Ég var á eyjunni grænu um helgina, nánar tilltekið í Dublin. Mætti galvaskur á svæðið á fimmtudagskvöldi og gisti alla helgina hjá Mary sem ég hef verið að vinna með að ýmsum skátamálefnum. Um kvöldið var haldið á pöbbinn þar sem lifandi írsk þjóðlagatónlist hljómaði, mikil stemming þar. Á föstudeginum hélt ég einn í bæjarferð og rölti um miðbæinn og eftir hádegi var haldið í Guinness storehouse sem er safn um sögu þessa merka öls. Sem dæmi að þá eru fyrirtækið með 9000 ára samning um afnot af vatnsbóli borgarinnar þannig að það er lítill hætti á skorti af Guinness í framtíðinni. Skoðunarferðinni lauk með þeim svarta á efstu hæð vöruhúsins með útsýni yfir alla borgina.

Laugardagurinn var aðalatriði helgarinnar. Írsku skátarnir voru með ráðstefnu um dagskrárbreytingar sem þeir eru að ganga í gengum. Þar sem ég hafði tekið þátt í að leiða samskonar ferli á íslandi að þá þótti þjóðráð að fá mig á staðinn ásamt einum portúgala og stelpu frá slóvakíu. Við reyndum að segja frá okkar ferli og aðstoða við þessa vinnu. Ótrúlegt að sjá að þeir eiga við svipuð vandamál að glíma og við í þessum ferli en það er víst að það eru alltaf einhverjir sem vinna gegn svona breytingum. Reyndar er það athyglisvert að núna er ég að taka áfanga sem nefnist organizations development and change sem fjallar nákvæmlega um þetta atriði að fara í gengum breytingarferli. Samkvæmt því sem ég hef lesið hingað til að þá er fólk yfirleitt ekki á móti breytingum heldur þeirri staðreynd að breytingin sem lögð er til kom ekki frá þeim sjálfum og þess vegna leggur fólk til aðra leið.

Á laugardagskvöldinu var svo 100 ára afmælisdansleikur. Með fínum mat, forsætisráðherra íra mætti og fleirra fínt fólk. Mjög fínt kvöld það.

Að lokum smá fróðleikur um Guinness tilviðbótar. Ég nefnilega fékk besta Guinness sem ég hef smakkað í vöruhúsinu hjá þeim, rann niður mjög ljúflega. Síðan á laugardagskvöldinu ákvað ég að fá mér einn mjöð svona í tilefni dagsins en hann var frekar vondur. Ástæðan er að þar sem ballið var haldið er barinn ekki opinn nema í sérstökum tilefnum og líklegt er að dælurnar hafi ekki verið hreinsaðar vel á milli og jafnvel möguleiki á að kúturinn sé síðan um þar síðustu helgi. Ef þú vilt góðan Guinness farðu þá á bar þar sem fjöldi heldri manna drekkur þennan mjöð á hverju kvöldi!

Ferðin var sem sagt mjög fín en verkefnin bíða...


Það styttist í jólin

Það er ótrúlegt hvað tíminn líður hratt hérna í Hollandi, nánast eins og ég hafi komið í gær en samt er svo langt síðan. Núna er einungis mánuðir eftir af önninni minni og verkefnin byrjuð að hlaðast upp á nýjan leik. Í hverri viku þarf ég að standa skil á verkefni og í byrjun desember verða það tvær hóp ritgerðir og ein einstaklingsritgerð ásamt því að þurfa að fara í munnlegt próf. Það er svolítið sérstakt með þetta munnlega próf nefnilega, það á að fara fram í viku 51 eða 52 og þegar kennarinn var spurður hvenær í viku 52 að þá nefndi hann aðfangadag. Ætli það sé ekki svolítið sérstakt að vera í prófi á aðfangadag! En svona er þeir Hollensku víst, fríið er bara rétt yfir hátíðarnar.

Á morgun held ég til Dublin á skátafund. Ætli ég hafi nú ekki frá einhverju skemmtilegu að segja eftir þá heimsókn. Írarnir vildi endilega fá mig til að koma og segja frá reynslu minni af skátadagskrárgerð, sem ég einmitt lauk við áður en ég flutti af landi brott. Svolítið sérstakt að ég vann að þessu verkefni í þrjú ár og loksins þegar það er tilbúið að þá stingur maður af, en mér er tjáð að þetta gangi mjög vel allt saman :-)

En já aftur að jólunum. Hér í Hollandi er siðurinn að jólasveinninn mætir á svæðið 5 desember, ca hálfum mánuði áður kemur hann til Hollands með skipi frá Spáni ásamt 10 svörtum aðstoðarmönnum. Það er ekki mikil umræða um kynnþáttafordóma í þessu samhengi sem maður hefur orðið var við eins og íslendingar sem eru að missa sig yfir 10 litlu negradrengjunum. En já þann 5 des fá börnin jólagjafir frá jólasveininum og svo er eitthvað lítið um gjafir um jólin sjálf. Það er allavega nú þegar búið að bjóða okkur í heimsókn á Hollenskt heimili þann 5. des svo það verður spennandi að sjá hvernig þetta er allt saman.  


heilsan komin í lag

Jæja eftir stutta kvefpest er heilsan komin í lag á nýjan leik. Við höfum verið á ferð og flugi um helgina, það var farið í gönguferð með leiðsögn um Leiden á laugardaginn og í gær var haldið til Amsterdam þar sem við skoðuðum Anna Frank húsið og fórum í bátsferð svo fátt eitt sé nefnt.

Skólinn er byrjaður af fullum krafti og skilaverkefnin farinn að kalla óþarflega mikið á mann. Ég þarf að klára fyrir miðvikudag research proposal og með því þarf ég að skila hvaða 7 greinar ég ætla að nota í þessari 6 blaðsíðna ritgerð. Það er eins gott að maður geti verið stuttorður og hitmiðaður.

Tengdó fara heim á morgun þannig að það verður veisla í kvöld og svo brettum við upp ermar og klárum verkefni áður en ég held á vit ævintýrana í Dublin á fimmtudaginn.


Horið lekur og tengdó í heimsókn

Já karlinn er kominn með kvef, ennisholur fullar af skít og horið lekur stanslaust. Ég veit ekki alveg hvaðan þetta hor kemur en það er nóg til af því. Það versta er eiginlega að maður er ekki svona almennilega veikur en á samt erfitt með að einbeita sér að lærdómnum þótt það sé nú þörf á því. Sennilega hef ég ekki þolað hitabreytinguna frá 9 uppí 15 gráður. Allavega getur partý standið um síðustu helgi ekki verið ástæðan...

Tengdó mætti á svæðið í gær. Álfheiður var búinn að finna gistingu fyrir þau hér í bæ en þegar þangað var komið leyst okkur nú ekki á blikuna. Fyrst svaraði karlinn ekki þegar við mættum og svo var herbergið svo lítið að ég gat ekki með nokkru móti séð að tveir einstaklingar gætu haft það gott þar að auki var það skítugt. Svo úr varð að þau ákváðu að gista á hóteli í nótt og við erum búinn að finna aðra gistingu fyrir sama verð en mikilu betri. Það er mikið skoðunarferðarplan framundan. Sendum þau í dag til Rotterdam, á morgun verður Leiden skoðuð og á sunnudaginn Amsterdam.

En ég þarf víst að klára verkefni í dag svo ég hafi tíma fyrir alla þessa skoðunartúra um helgina. Best að snúa sér að verkefninunum og hrista þetta kvef af sér...

ps. þau komu nú ekki með slæma sendingu, fullt af jólamat, sælgæti, malt og appelsín, harðfisk svo fátt eitt sé nefnt :-)


Fyrsta einkunn kominn í hús

Fékk fyrstu einkunina mína áðan fyrir Management studies. Í þessum áfanga þurftum við að halda úti bloggi, taka áskoranir og skrifa 20 blaðsíðna ritgerð. Það er skemmst frá því að segja að ég náði þessum áfanga og hef nú lokið 6 ECTS Cool. Ég fæ ekki út úr hinum áfanganum fyrr en um miðja næstu viku.

Ó hvað ég er glaður núna...hvað á maður að gera af sér eiginlega!!! Best að gera sig kláran til að mæta í tíma eftir hádegi.


tímabreytingarferlistímabil

Já ég get sko sagt ykkur það að ég var staddur á lestarstöðinni í Delft rétt fyrir klukkan þrjú á sunnudagsmorguninn þegar klukkurnar allt í einu stoppuðu 02:59. Á töflunni stóð svo að næsta lest myndi koma tólf mínútur yfir. Maður var allt í einu staddur í tímarúmi þar sem tíminn stendur í stað en heldur samt áfram að tikka. Klukkan var sem sagt færð aftur um klukkustund þarna og nú munar einungis klukkutíma á Hollandi og Íslandi. Það auðveldar reyndar aðeins samskiptin við Ísland.

Annars er kominn vetur, laufinn falla í gríð og erg og hitastigið komið niður fyrir 10 gráður. Nýja úlpan reynist að sjálfsögðu frábærlega.

Við fórum í túristaferð til Rotterdam um helgina. Vissum nú ekkert hvað við ætluðum að gera þar og þetta byrjaði nú ekki gæfulega því þegar maður kemur til Rotterdam centraal station að þá er verið að endurbyggja stöðina. Fundum túristaskrifstofuna og fengum kort og lýsingu á göngutúr um borgina. Við héldum svo af stað í göngutúrinn, hélt að Álfheiður yrði úti því ekki klæddi stelpan sig mjög vel. Eftir ágætan hádegisverð var haldið í siglingu um höfnina í Rotterdam. Það er augljóst að umsvif Samskipa eru nokkur, eitt gámaflutningaskip sigldi fram hjá okkur merkt samskip og svo sáum við hvar fyrirtækið er með bækistöðvar við höfnina. Þetta er ótrúlega stórt svæði en siglingin tók 75 mínútur. Seinnipartinn hittum við svo hana Ingu Auðbjörgu og héldum svo heim á leið. Um kvöldið var haldið í afmæli hjá Rúnu í Delft, sjá bloggið hennar Álfheiðar um kennslustund í stuðmannahoppinu.

En ný önn er hafinn, þurfti að rjúka út rétt fyrir klukkan 8 í morgun til að sjá að lestinn mín væri 15 mínútum of sein. En ég er svo þýskur í mér að ég er alltaf mættur vel fyrir þannig að þetta skipti ekki mikilu máli.


Skátar leiðtogar framtíðarinnar

Það er sérstakur heiður að fá Forsetamerkið afhent eftir að hafa unnið að því í tvö ár markvisst að uppfylla skilyðrin fyrir því. Sjálfur hlaut ég merki #814 (að mig minnir) fyrir 12 árum síðan. Ég tók nú þátt í að yfirfara verkefnin frá skátunum síðustu ár og veit nákvæmlega hvað þau hafa lagt á sig til að ná þessum áfanga. Til hamingju allir sem fengu merkið afhent í gær og vonandi verður þetta gott veganesti til framtíðar - Skátar leiðtogar framtíðarinnar!
mbl.is Skátar taka á móti forsetamerkinu á Bessastöðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

fyrstu önn lokið...

Þá er fyrstu önninni lokið í skólanum og nokkra daga pása þar til næsta hefst. Maður veit eiginlega ekki hvað maður eigi að gera af sér. Við fórum í gær á alþjóðakvöld á Einstein, troðið út úr dyrum en ágæt kvöld samt sem áður. Í kvöld er stefnan tekin á póker í Delft með öðrum íslendingum og um helgina er planið að fara til Rotterdam að skoða sig um og hitta hana Ingu Auðbjörgu sem er að læra þar. Það er svo sem ekki hægt að segja að við sitjum með hendur í skauti þrátt fyrir að hlé sé á námi. Þarf reyndar að fara á morgun til Amsterdam og ná mér í bækur fyrir tímana í næstu viku.

Annars er allt gott að frétta. Það er farið að kólna hér hitinn fór niður fyrir 10 stig í gær svo að veturinn er sennilega að skella á. Keypti mér af þeim sökum þessa bráð góðu úlpu svo að maður verði nú ekki úti í hinum Hollenska vetri. Ég ætla að halda áfram að gera ekki neitt....


Þeir fara hægt en...

Við fundum tvo skaðvalda í gær þegar við komum heim, tveir sniglar höfðu gert sig heimakomna í eldhúsinu hjá okkur. Höfðum tekið eftir einhverju slími á gólfinu um daginn en ekki séð eða áttað okkur á því hvað þetta gæti verið. Sökudólgarnir eru sem sagt fundnir en hvernig þeir komust inní eldhús seint að kveldi til er okkur hulinn ráðgáta.

Annars er þetta búin að vera lærdómshelgi mikil hjá mér. Ég er að leggja loka höndina á ritgerð í management studies og þar með er þeim áfanga lokið. Síðan þarf maður að hysja upp um sig brækurnar og hefja lestur fyrir próf sem ég fer í á miðvikudaginn. Púff þetta eru búnar að vera stremnar vikur en svo kemur stutt pása, tveir virkir dagar og ný önn er hafinn með látum. Reyndar er böggið út af næstu önn hafið þar sem maður þarf að vera búinn að mynda hóp áður en tímar hefjast. Það er nú að takast hjá mér, kominn með þrjá af fjórum í hópinn minn. Tel það nú vera nokkuð góðan árangur svona miðað við að ekki þekki ég nú marga af þessum 100 manns sem ég geri ráð fyrir að verði í þessum áfanga :-)

Sá í fréttum að það hefði verið eitthvað uppþot í amsterdam. Þetta fór nú algjörlega fram hjá mér. Ég hef nú svo sem ekki verið þekktur fyrir að taka þátt í svona brjálæði...eða hvað?


Af samskiptahæfni Hollendinga

Það að gera eitthvað í skyndi er hugtak sem er Hollendingum ekki tamt. Í þessari færslu ætla ég að upplýsa um samskipta hegðun Hollendinga og afhverju þeim er þetta ekki tamt.

Dæmi 1
Það er föstudagur og þú ert að vinna í tölvunni. Seinnipartinn sérðu að vinur þinn er á msn og þú ákveður að spyrja hvort þið eigið ekki að gera eitthvað í kvöld. Ef þú værir að tala við íslending myndi hann sennilega segja jú það væri þjóðráð að hittast í kvöld, ég er einmitt ekkert að gera. Hollendingurinn myndi segja ég er laus á sunnudagskvöldið jafnvel þrátt fyrir að hann sé ekkert að gera um kvöldið. Ekkert gerist í skyndi!

Dæmi 2
Eftir talsverða erfiðleika hefur þér tekist að fá þér bankareikning í Hollandi. Eins og sönnum íslending að þá finnst þér nú ómögulegt að geta ekki notfært þér netbankann og ferð í útibúið þitt til að sækja um aðgang. Ehh...nei það er ekki hægt. Þú verður að fara á netið, senda inn umsókn, fá hana senda 3-4 dögum seinna til undirskriftar og þá sendir þú hana til bankans til að fá lítið tæki eftir 8 daga. Ekkert gerist í skyndi!

Dæmi 3
Þessi saga kemur frá Álfheiði. Útlensk stelpa hér í bæ nær að pikka upp Hollenskan strák. Þau ákveða að hittast á stefnumóti. Eftir mánuð hafa þau hist nákvæmlega fjórum sinnum og viðkomandi stelpu finnst nú kominn tími til að hitta drenginn oftar. Hún sendir honum sms um hvort hann vilji ekki hitta hana um kvöldið á barnum, enginn svör koma, hún fer og hittir vini sína á barnum og verður frekar óþolinmóð eftir svari og sendir önnur skilaboð. Svar kemur hálftíma seinna "hverslags óþolinmæði þetta sé nú"! Okkur var nú sagt að þetta ástand getur varað í heilt ár! Ekkert gerist í skyndi!

Á þessu dæmi sést að Hollendingar þola ekki að gera eitthvað skyndilega. Fyrir mann eins og mig sem lifi fyrir að detta í hug að gera eitthvað og framkvæma það er þetta náttúrulega það versta sem getur komið fyrir. En það víst bætir þetta allt upp hvað Hollendingar eru samt almennilegir og hjálpsamir. Eitt er ég þó viss um að karakterinn úr Little Britain "computer says no" er búinn til út frá Hollendingi!!! 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Ingvar Bragason
Jón Ingvar Bragason

Ég stunda Mastersnám í Amsterdam og er á heimleið, ótrúlegt en satt. Á þessu bloggi reyni ég að greina frá því sem verður á vegi mínum og hugleiðingar um hin ýmsu málefni.

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Tónlist

Dixiebandið Öndin



Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband