Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Góð jól í Hollandi

Við erum búin að hafa það mjög gott þessa jólahátíðina, þökkum fyrir góðar gjafir og kveðjur.

Á aðfangadag var borðaður hryggur ásamt kökum, smákökum, og fleira góðgæti. Eftir að hafa opnað pakkana (sem náðu í tíma) og skoðað jólakortin var rætt við stórfjölskyldurnar á skype með aðstoð vefmyndavélar. Þannig að aðfangadagur var með hefðbundnu sniði hjá okkur.

Jóladagur var tekin með miklum svefni og lestri fram eftir degi. Seinnipartinn var síðan haldið í jólaboðið hjá Grikkjunum og haldið uppá alþjóðlegan jóladag. Fjölbreytt fæði í boði og farið í skemmtilegan pakkaleik.

Í dag annan dag jóla verður það tekið rólega. Myndum sennilega ekki fara út úr húsi en við verðum víst að ná í dótið okkar frá því í gær! Og svo þurfum við að ákveða hvort það verður haldið af stað til Þýskalands á morgun eða hinn daginn og þá hvaða leið verður tekin.

En ef þið hafið áhuga þá er hægt að skoða myndir á http://public.fotki.com/joningvar/jol_i_hollandi/ af ævintýrum síðustu daga hjá okkur!


Gleðileg jól

Jóla undirbúningur gengur vel hér í Hollandi. Erum að elda graut í hádegismat og í kvöld verður hryggur ásamt fleira góðgæti og til að skola þessu öllu niður höfum við að sjálfsögðu malt og appelsín.

Síðustu daga höfum við farið til Amsterdam, Antwerpen í Belgíu og Den Haag. Mikið að gera og skoða hér í kring. Núna er verið að kaupa það síðasta enda allt opið í dag hér!

Við óskum ykkur öllum gleðilegra jóla!

Jólamynd


Skítakuldi

Það er kalt þessa dagana í Hollandi. Það er meira segja svo kalt að hjólið er farið að "kvarta" yfir meðferðinni. Ég var að hjóla út í búð áðan og allt í einu virkuðu gírarnir ekki og ég komst ekkert áfram, barði aðeins í hjólið og þá hrökk þetta allt í gang. Það verður spennandi að sjá hvort að það kólni meira eða hvort það hlýni á nýjan leik. Það er öruggt ef það kólnar eitthvað meira að þá fara síkin að frjósa, þá er gaman. En slíkt hefur víst ekki gerst í 10 ár er mér sagt.

Annars er það að frétta að engin veit hvað varð um töskuna með skötunni minni. Við verðum víst að gera okkur plokkfisk að góðu á Þorláksmessu! Jólakort eru farin að skila sér og einn pakki til Steinunnar. Tveir aðrir pakkar sem ég veit af eru skammt undan, vonandi!

Panið næstu daga:

Fimmtudagur

  • Fara í munnlegt próf kl. 8:00 (þarf að taka lestina kl. 7:00, þetta er ekki mannlegt)
  • Stórtiltekt á heimilinu áður en gesturinn kemur
  • Sækja Steinunni á Schiphol um hálf þrjú ef ég man rétt
  • Fara til Den Haag í Albert Heijn ef tími gefst til
  • Partí um kvöldið með Grikkjunum

Föstudagur

  • Skoðunarferð til Amsterdam

Laugardagur

  • Ferð á jólamarkað í Dusseldorf í Þýskalandi

Sunnudagur

  • Þorláksmessa og engin skata
  • Fáum Wim, Marielle og börn í heimsókn í enga skötu

Aðfangadagur

  • Góður matur og rólegheit

Jóladagur

  • Rólegheit fram eftir degi
  • Veisla hjá Grikkjunum byrjar kl. 18:00

Lengra veðrur ekki farið með planið að sinni!!!


Einkavæðum Landsvirkjun

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að það eigi að skoða það með alverlegum hætti hvort ekki sé rétt að einkavæða Landsvirkjun og önnur orkufyrirtæki í landinu. Til lengri tíma litið er ég sannfærður um að það skili þjóðarbúinu og heimilinum í landinu mun meiri ávinningi.

Þessi umræða er í það minnsta þörf og fagna ég framtaki Gísla Marteins að brydda uppá henni!

Það er ótrúlegt hvað sumt fólk er fljótt að koma með úthrópanir og vitleysu þegar það er minnst á þessi mál. Fólki er frjálst að hafa mismunandi skoðanir og að ræða hluti með rökum án þess að vera úthrópaðir vitleysingar, eins og einkennir athugasemdir margra bloggara í dag.


mbl.is Vill einkavæða Landsvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skatan er týnd

Eins ég lýsti í síðustu bloggfærslu þá hélt skatan mín af stað frá íslandi um miðjan dag í gær, eða svo hélt ég. Eitthvað virðist hafa farið úrskeiðis og taskan sem skatan var í ásamt öðru góðgæti fyrir eigandan er týnd og engin veit um afdrif hennar. Ég er búinn að vera í andlegu skjokki í dag og vonandi kemur þetta í ljós von bráðar. Fyrst og fremst vona ég að það verði í lagi með skötuna mína svo hún geti nú örugglega ratað í pottinn hér í Leiden og dreift frábæri lykt um hverfið!!!

Nánari upplýsingar af þessu dulafulla máli koma fljótlega...


Ég fæ skötu

Eftir talsverða skipulagningu er ég búin að tryggja mér skötu fyrir Þorláksmessu.
Skatan var keypt í fiskbúð í dag og afhent fyrsta "burðardýrinu". Á morgun heldur
skatan af stað til Kaupmannahafnar þar sem hún býður þess að vera flutt hingað til
Leiden. Alls þurfti ég að fá fjóra aðila til að koma þessu í kring, hvað gerir maður ekki
fyrir skötuna? Ég var síðan að spá í að bjóða nokkrum útlendingum í að smakka skötu
í hádeginu á þorláksmessu - eins gott að kanna það hvernig best er að sjóða skötuna :-)
Það er aldrei að vita nema að ég fái jóla Tuborg til að hafa með skötunni.

Jólaundirbúningur hefur gengið furðuvel á heimilinu. Fórum í gær með 
jólakort í póstinn og pakka til Noregs. Inga Auðbjörg flytur svo restina
til Íslands á þriðjudaginn en það er búið að kaupa allt, bara smávægilegur
lokafrágangur eftir. Þannig að núna á bara eftir að þrífa og skreyta
örlítið heimilið, það má víst ekki vera mjög mikið svo við göngum nú ekki
fram af Hollendingunum.

Jólalag Baggalúts komið út það styttist óðum í jólin :-) 


Tveimur skrefum nær...og ég missti af óveðri

Rétt í þessu var ég að skila inn verkefni, síðasta verkefnið sem ég þarf að skila inn á þessu ári. Í gær fór ég í próf svo það eina sem eftir er fyrir jól er munnlegt próf á þriðjudaginn. Þetta hefur allt gengið ágætlega hingað til og í dag ætla ég að taka mér tíma í að skrifa jólakort og ganga frá fáeinum hlutum áður en ég helli mér á nýjan leik í lestur.

Ég var að lesa það á mbl að það hefði verið óveður á sv-horninu íslandis í gær. Maður missir greinilega af öllu því skemmtilega. Maður er meira að segja farinn að kippa sér upp við smá rok hér í Leiden.

Já komst að hrikalegum hlut í gær á heimleiðinni frá skólanum. Þann 9. des þá breyttust lestaráætlanir hér í Hollandi og stundum eru þessir hlutir jákvæðir en fyrir mig að þá þýðir það að tengingin við Leiden versnaði örlítið. Það var þannig að ég gat tekið hvaða lest sem er heim og ég náði fljótlega tengingu á Schiphol, en núna þá þarf ég að bíða í 10 mínútur á Schiphol ef ég tek lestina 26 mínútur yfir af því að hún fór alltaf 24 og tengilestin 33 en núna fer hún sem sagt 26 en hin lestin 29 þannig að ég næ henni ekki og næsta lest er 45. Spáið í þessu, agalegt dæmi!!!


Vika eftir og þá er komið jólafrí

Það er ótrúlega fínt að vera inni að læra fyrir próf þegar veðrið er svona leiðinlegt, rigning og kuldi hér í Leiden. Flestir myndu nú reyndar segja að 8 stiga hiti sé nú ekki mjög kalt en það er það nú bara víst!

Á morgun fer ég í próf og að því loknu þarf ég að ljúka við verkefni sem á að skila á hádegi á fimmtudag. Síðan tekur við lestur en síðasta prófið mitt er 18. des kl. 18:00 og það er munnlegt. Ég man nú ekki til þess að ég hafi áður farið í munnlegt próf í svona efni, þegar ég var í MK þá fór maður í munnlegt próf í tungumálum en ekki svona miklu efni. Við erum þrír sem förum saman í prófið og erum spurðir út í verkefni sem við unnum saman og efni annarinnar, verður spennandi að sjá hvernig þetta fer allt saman.

Annars svona í hjáverkum hef ég verið að skoða hvaða leið er best að keyra til Þýskalands á milli jóla og nýárs. Við erum búin að leigja bíl þann 27. des til 3. jan. og mestan þann tíma verðum við í skátakastala í Rieneck í Þýskalandi. Samkvæmt Google Earth að þá eru þetta 544 km sem við ættum að vera ca 5 tíma að keyra. Álfheiði langar á jólamarkað svo ég var að spá í að stoppa í Köln og kíkja þar á markaðinn, þeir eiga víst að vera opnir til 30. des. Við þurfum að skoða þetta en Google Earth er stór sniðugt forrit þegar maður er að átta sig á vegalengdum og hvar er áhugavert að stoppa á leiðinni.

En best að setja herra Senseo í gang og fá sér einn kaffibolla og halda svo áfram að lesa!!!


Svarti Pétur

Hann Svarti Pétur fór víða síðustu daga og náðu lætin hámarki á fimmtudaginn. Svarti Pétur heitir reyndar Piete á tungumáli gárungana hér í Hollandi og rænir víst ekki banka heldur er aðstoðarmaður Sinter Klaas (ath ekki sama og jólasveinninn). Síðasta miðvikudag fóru Pietar víða og gáfu gjafir frá Sinter Klaas en það er siður að hann geri það daginn fyrir afmælið sitt. Í gær hélt svo Sinter Klaas ásamt Pétrunum (því þeir eru nokkrir með þessu nafni) heim á leið til Spánar.

Við vorum svo heppin að Marielle og Wim buðu okkur heim þennan dag. Á einhvern óskiljanlegan hátt vissi Sinter Klaas nákvæmlega hvar við vorum svo við fengum gjöf, Hollenska klossa, bjór, tösku og stafinn okkar. Mjög fróðleg og skemmtileg kvöldstund.

sinterklaas1sinterklaas2sinterklaas3

Fyrir okkur íslendingana var þetta sérstakt að því leitinu að ekki var boðið uppá sérstakan mat eða klæddu menn sig uppá í tilefni dagsins. Það eina eiginlega sem braut upp daginn voru þessar fáeinu gjafir sem Sinter Klaas skyldi eftir í garðinum fyrir vesælan almúgann.

 

Núna er búið að breyta í búðunum og Sinter Klaas ásamt Piete er horfin og "hefðbundið" jólaskraut tekið við. Reyndar eru útsölur hafnar í búðunum sem kemur okkur spánskt fyrir sjónir en við kvörtum svo sem ekki!!!


Krullað í Kandersteg

Ég var um helgina að skátast í Kandersteg. Við vorum að skipuleggja fund fyrir þá sem bera ábyrgð á starfi 16-22 ára skáta í hverju landi fyrir sig, fundurinn verður í byrjun apríl í Kandersteg. Þetta er frábær staður, reyndar var enginn snjór en veðrið var frábært. Ef þið viljið kynna ykkur Kandersteg þá getið þið farið á www.kisc.ch.

Flaug með EasyJet til Basel þar sem Ella Vala tók á móti mér og bauð mér í mat. Eftir góða stund með Ellu Völu og Dirk var haldið á áfangastað. Á föstudagskvöldið var boðið uppá osta foundu að sjálfsögðu og á laugardagskvöldið var haldið í Krullu eða Curling. Ég hefði nú ekki trúað því að láta fleyginn renna og að sópa væri erfiðisvinna, þetta kom skemmtilega á óvart. Mitt lið tapaði að sjálfsögðu en við skemmtum okkur mjög vel. Myndir af helginni: http://public.fotki.com/joningvar/www-in-kandersteg

Krullað í Kandersteg

Basel flugvöllur er svolítið sérstakt fyrirbæri. Í raun og veru er hann í Frakklandi en hann er rekinn sameiginlega af Svisslendingum og Frökkum. Í miðri flugstöðinni er veggur sem skipti landamærunum, salir 1 og 2 eru í Frakklandi og 3 og 4 í Sviss.

Kom sem sagt heim á sunnudaginn örþreyttur og gærdagurinn var frekar þreyttur dagur. En maður má víst ekki slá slöku við, mörg verkefni eru á skiladegi og svo er próf í næstu og þar næstu viku. Tvær vikur í jólafrí Smile


Höfundur

Jón Ingvar Bragason
Jón Ingvar Bragason

Ég stunda Mastersnám í Amsterdam og er á heimleið, ótrúlegt en satt. Á þessu bloggi reyni ég að greina frá því sem verður á vegi mínum og hugleiðingar um hin ýmsu málefni.

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Tónlist

Dixiebandið Öndin



Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband