Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

lokaverkefni

Ég er að reyna að velja mér lokaverkefni sem ég mun svo vinna að næstu fimm mánuði. Þetta er nú allt í nokkuð föstum skorðum, þ.e. ég vel mér leiðbeinanda sem er með ákveðin þemu í gangi. Venjulega er þetta hluti af stærri rannsókn og það sem maður gerir er hluti af þeirri vinnu. Ég verð nú að játa að ég var ekkert sérstaklega spenntur eftir kynninguna á þessu fyrir jól en þegar ég las í gegnum tillögurnar aftur að þá rak ég augu í að einn leiðbeinandinn er að skoða skapandi iðnað eða "creative industry". Ég þekki nú aðeins til í þessum geira og það væri áhugavert að skoða hann nánar. T.d. gæti ég skoðað afhverju tónlistarmenn eru í meira mæli farnir að gefa út sjálfstætt, hefur það áhrif á sköpun verksins?

Ég er með fleirri hugmyndir í kollinum svo ég sendi póst á þennan leiðbeinanda áðan til að fá upplýsingar. Þá fékk ég svar um hæl til baka að hún væri í fríi til 11.mars. Núna er ég að bíða eftir svari hvað það þýðir...


Þetta þokast

Það er helst í fréttum að lítið er að gerast þessa dagana. Veðrið hefur heldur skánað og búið að vera um 8 stiga hiti síðustu daga. Ég notaði helgina til að vinna í haginn og vann í nokkrum verkefnum ásamt því að gera hreinlega ekki neitt. Ég þarf að velja mér lokaverkefni núna í vikunni, veit ekkert hvað ég á að velja!

Af ferðalögum framundan að þá er þetta dagskráin:

15.-17. feb - IMWefundur í Rieneck
20.-21. feb - RoverNet fundur í Genf (óstaðfest)
16.-24. mars - IMWe í Rieneck
3.-6. apríl - RoverNet 3.0 í Kandersteg
16.-18. maí - IMWefundur í Rieneck


hversu lengi getum við búið við þennan gjaldmiðil

Það er hreint ótrúlegt hvað krónan breytist mikið gagnvart evrunni hvern mánuð. Sem dæmi að þá var gengið í gær 1 evra = 90 krónur í dag er það 1 evra = 92 krónur. Síðan við fluttum til Hollands hefur gengið gengið upp og niður um ca 10 krónur. Það getur bara munað heilmiklu þegar maður þarf að millifæra úr íslenskum krónum í evrur hvern mánuð. Ég held að íslendingar eigi að líta raunsætt á þetta mál og taka upp evruna og ganga í evrópusambandið. Mörg fyrirtæki eru búin að tryggja sig gagnvart þessu flökti þannig að þeir sem fara verst út úr þessu er almenningur í landinu.

Ný önn hafin

Á mánudaginn hófst ný önn sem er bara út janúar. Ég er í tveimur fögum annarsvega siðfræði eða "ethics" og hinsvegar hæfni í akademískum vinnubrögðum eða "AC skills". Fyrra fagið er svolítið á heimspekilegum nótum og verið að vekja okkur til umhugsunar um siðferði í viðskiptum og að það sama gildir ekki allstaðar í heiminum. Hitt fagið er meira sem ég þekki og bætir við það sem ég lærði í THÍ um að framkvæma rannsóknir. Þennan mánuðinn þarf ég að mæta fjóra daga vikunar í skólan og þar af tvo klukkan 9 sem þýðir að fara á fætur kl. 7 til að taka lestina í tíma.

Við byrjuðum líka á fagi fyrir næstu önn núna. Það er búið að mynda hóp og við eigum að finna fyrirtæki sem við eigum að veita ráðgjöf við einhverju vandamáli. Verkefni þessa mánaðar er að semja við fyrirtækið og ákveða hvaða mál við ætlum að veita ráðgjöf við.

Annars eru einkunnir farnar að koma í hús, ein er mjög góð en hin ekki góð og ég þarf væntanlega að taka það upp í ágúst. Ég átti að fá síðustu einkunina á mánudaginn en hún hefur ekki komið ennþá. Vonandi kemur þetta fyrir helgi.


Annáll 2007

Í upphafi árs hef ég haft það fyrir sið að gera upp það gamla, aðalega fyrir mig til að sjá hvað ég gerði á síðasta ári. Árið 2007 verður sennilega flokkað sem ár stórra breytinga en förum lauslega yfir þetta:

Janúar

Árið byrjaði með miklum fundarhöldum enda ný skátadagskrá að komast á loka stig. Þegar ég lít í dagbókina mína sé ég að ég hef verið á fundum meira og minna alla daga vikunnar. Man svo sem ekki til þess að neitt annað markvert hafi gerst þennan mánuðinn.

Febrúar

Byrjaði mánuðinn á að funda með skátafélögum sem voru að forprófa skátadagskrána, fundurinn var haldin í Ölveri í Borgarnesi þar sem farið var yfir hvað gekk vel og hvað mætti betur fara. Helgina eftir var haldið á IMWefund í Þýskalandi og þó svo ég muni það ekki sérstaklega að þá virðist vera sem ég hafi dvalið nokkra daga aukalega þar. Í þessum mánuði byrjaði bíllinn að gefa sig líka og þegar upp var staðið í ágúst að þá kostaði þetta okkur frekar mikla peninga að halda honum gangandi þessa sex mánuði sem ég átti eftir að eiga hann. Ég hélt ræðu í skátamessu í Grafarvogi sem mig minnir að hafi nú bara gengið ágætlega og það var áframhald á fundum fyrri mánaðar nánast alla daga vikunnar.

Mars

Fór öðru sinni á ráðstefnu um dagskrár og þjálfunarmál, að þessu sinni í Houens Odde í Danmörku. Ferðin var nokkuð góð og skilaði góðum árangri fyrir loka hnykkinn í að klára skátadagskrána. Um miðjan mánuð tók ég TOFEL prófið sem gekk nokkuð vel og já lauk við að senda inn umsókn í skólann. Við buðum nokkrum í mat þar sem spilaður var Murder leikur, mikið stuð. Skátaþing var haldið í lok mánaðarins þar sem skátadagskráin var samþykkt og þar með lauk formlega þriggja ára vinnu við hana og innleiðingarferlið hófst. IMWe fór fram um mánaðarmótin mars apríl með þemanu "Sherlock Holmes Murderd?" og lék ég Dr. Watson. IMWe heppnaðist einstaklega vel að þessu sinni.

Apríl

Imwe stóð alveg fram í miðjan mánuð og við tóku svanstónleikar, sumardagurinn fyrsti þar sem ég var ræðumaður dagsins í Kópavogi og RAP grill þar sem við sem höfðum unnið í fremstu línu gerðum upp starfið með mökum. Ég fékk staðfestingu í lok mánaðarins á því að ég hafði komist inní Vrije Universiteit í Amsterdam og undirbúningur fyrir flutning komst á fullt.

Maí

Evrópuþing skáta í Slóveníu kom óvænt inn hjá mér. Það hafði ekki verið á dagskrá að fara þangað en sökum forfalla var ég beðin um að slást í hópinn. Mjög skemmtilegt þing þar sem málefni skáta í evrópu voru rædd. Á heimleiðinni fór ég til Rieneck í Þýskalandi á IMWefund og svo tók Jamboree undirbúningur við.

Júní

Mikil fundarhöld einkenndu mánuðinn þar sem ég fór og heimsótti skátafélög sem vildu taka upp skátadagskrána. Einnig var ég í framlínunni sem veislustjóri í 60 afmælinu hjá Mömmu og Pabba sem haldið var með pompi og pragt 9. júní. Á 17 júní var óvenju mikið að gera þar sem svanurinn spilaði tvisvar og öndin spilaði einu sinni og vatnskassinn í bílnum gaf sig. Fór í brúðkaup hjá Gumma og Gásu helgina eftir þar sem Öndin spilaði einnig. og Jamboree undirbúningur í algleymingi.

Júlí

Afmælismót á Úlfjótsvatni þar sem póstar fyrir Jamboree voru prófaðir, svansútilega í Fljótshlíð þar sem Svanir voru kvaddir og jamboree. Já í lok mánaðarins var haldið á Alheimsmót skáta (Jamboree) á Englandi með yfir 400 íslenska skáta. Mótið var að sjálfsögðu ótrúleg upplifun og margt skemmtilegt gerðist þar sem of langt er að telja upp hér.

Ágúst

Jamboree lauk og undirbúningur fyrir menningarnótt og brottför af Íslandi náði hámarki. Spilaði á menningarnótt og fór í brúðkaup hjá Elvu og Reyni sama dag. Í því brúðkaupi var ég líka veislustjóri sem ég held að ég hafi klárað með nokkrum sóma þrátt fyrir að þurfa að stinga af áður en veislunni lauk. Við þryfum íbúðina og skiluðum henni til Freys 22. ágúst og flugum svo af landi brott daginn eftir. Þá var sem sagt allt komið í geymsluna, bílinn seldur og ferðatöskur úttroðnar. Á Schiphol flugvelli í Amsterdam tóku þau Wim og Marielle á móti okkur og keyrðu okkur til Leiden til að ganga frá Leigusamningi og svo í nýju heimkynni okkar.

September

Skólaganga hófst á nýjan leik við Vrije Universiteit í Amsterdam. Skrapp á IMWe fund í byrjun mánaðarins og við fengum fyrstu gestina um miðjan mánuð, Evu og Inga. Kynnti Roverway á skátamóti í Boxtel í Hollandi.

Október

Skólinn hélt áfram þar sem ég lauk fyrstu tveimur fögunum. Í enda mánaðarins var haldið í skoðunarferð til Rotterdam.

Nóvember

Ný önn hófst og ég fór á skátafund í Dublin. Í byrjun mánaðarins komu Guðmundur og Torfhildur foreldrar Álfheiðar í heimsókn færandi hendi. Þau komu með mat fyrir jólin. Álfheiður hafði tekið saman dagskrá og við skoðuðum Leiden og Amsterdam og borðuðum mikið af góðum mat.

Desember

Byrjaði mánðuðinn á skátafundi í Kandersteg. Steinunn kom og var hjá okkur yfir jólin þar sem við átum mikið af góðum mat og fórum víða. Meðal annars var skroppið til Amsterdam og Anterwerpen. Um áramótin vorum við svo í Rieneck skátakastalanum í Þýskalandi.

Þetta er annáll ársins í mjög stuttu máli. Ég er örugglega að gleyma einhverju en það má segja að þrennt hafi staðið virkilega uppúr á árinu:

  • Skátadagskráin kláraðist
  • Alheimsmótið á Englandi
  • Flutningur til Hollands

Fyrir utan annað sem var líka frábært svo sem afmælið hjá Mömmu og Pabba og brúðkaup.


Gleðilegt nýtt ár

Við komum til baka seint í gær eftir góða ferð til Þýsklands. Við leigðum okkur bíl, að sjálfsögðu Renault Megané, og keyrðum sem leið lá til Rieneck í Þýskalandi (um 80 km frá Frankfurt). Stoppuðum reyndar stutt hjá Christof og Christoph í Bad Orb.

Það er ótrúlegt að keyra eftir þessum þýsku hraðbrautum. Maður þeysti þetta á 130 mest af leiðnni en stóru BMW og Benz þustu fram úr án mikillar fyrirhafnar. Ferðalagið var einfallt og þægilegt, þökk sé Google Earth og góðri leiðsögn Álfheiðar.

Í kastalanum í Rieneck tókum við því að mestu rólega, spilðum spil, sungum, horfðum á myndir, göngutúrar og fórum til Wurtzburg. Á gamlárskvöld var boraður góður matur og fljótlega eftir það var horft á myndina "Dinner for one" sem þjóðverjar horfa víst alltaf á á Gamlárskvöld. Þessi mynd fjallar um 90 afmæli konu og þjóninn hennar sem...já maður má víst ekki segja allt. Áramótnunum var svo fagnað á toppi gamla turnsins þar sem við sáum fáeina flugelda og skáluðum í freyðivíni með hinum 30 sem voru þarna með okkur.

Sem sagt góð ferð og skemmtilegt að upplifa áramót á nýjum stað!!! Myndir koma fljótlega.


« Fyrri síða

Höfundur

Jón Ingvar Bragason
Jón Ingvar Bragason

Ég stunda Mastersnám í Amsterdam og er á heimleið, ótrúlegt en satt. Á þessu bloggi reyni ég að greina frá því sem verður á vegi mínum og hugleiðingar um hin ýmsu málefni.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Tónlist

Dixiebandið Öndin



Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband